Það varð uppi fótur og fit í herbúðum NFL-liðsins Dallas Cowboys er stór hluti leikmanna liðsins skilaði sér ekki upp á hótel á réttum tíma síðasta föstudag.
Liðið var í London að undirbúa sig fyrir leik á Wembley. Leikurinn var gegn einu lélegasta liði deildarinnar, Jacksonville Jaguars, og leikmenn leyfðu sér því að vera kærulausir.
Tuttugu leikmenn skiluðu sér ekki upp á hótel á réttum tíma á föstudeginum. Þeirra á meðal var stórstjarna liðsins, Dez Bryant. Hann viðurkenndi að hafa verið úti að skemmta sér.
Blessunarlega fyrir Dallas þá valtaði liðið yfir Jacksonville, 31-17. Ef illa hefði farið þá hefðu leikmenn liðsins ekki fengið frið næstu vikurnar.
Bryant var aðalmaðurinn í leiknum og skoraði tvö snertimörk.
