Rúmir níu milljarðar innheimtust í veiðigjöld og sérstök veiðigjöld fiskveiðiárið 2013-2014. Alls fengust tæplega 1,4 milljarðar í afslátt vegna vaxtakostnaðar við kaup á aflahlutdeildum samkvæmt bráðabirgðarákvæðis í lögum um fiskveiðiárið. Þetta kemur fram í svörum Sigurðar Inga Jóhannssonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, við fyrirspurn Kristjáns L. Möller, þingmanns Samfylkingarinnar.
Almenna veiðigjaldi skilaði 4,4 milljörðum króna á meðan það sérstaka átti að skila 6,1 milljarði. Vegna frádráttarins skilaði sérstaka veiðigjaldið hinsvegar 4,8 milljörðum króna.
Gögnin í svari Sigurðar Inga eru sundurgreind eftir hvar á landinu greiðendur veiðigjaldanna eru. Samkvæmt þeim voru hæstu veiðigjöldin greidd af aðilum í Reykjavík, eða sem námu 2,2 milljörðum króna. Næst á listanum koma greiðendur í Vestmannaeyjum sem borguðu 1,7 milljarða í veiðigjöld og svo greiðendur á Akureyri, sem greiddu rétt rúman milljarð.
Mestan afslátt fengu hinsvegar aðilar í Grindavík sem fengu tæplega 350 milljóna króna lækkun á sérstökum veiðigjöldum sem þeir áttu að greiða. Greiðendur á Siglufirði fengu 124 milljóna króna afslátt, greiðendur á Hellissandi fengu 112 milljóna afslátt og greiðendur í Hnífsdal 103 milljóna afslátt. Aðrir fengu undir hundrað milljónir í afslátt en alls fengu aðilar í 36 stöðum á landinu afslátt.
