Yousef Tamimi er Palstínumaður í aðra ættina. Hann og kona hans, Linda Ósk Árnadóttir vörðu síðasta sumri í að sinna hjálparstarfi á Vesturbakkanum. Hann er útskrifaður hjúkrunarfræðingur og hún er að læra læknisfræði. Þau sinntu störfum á færanlegum sjúkrahúsum á Vesturbakkanum.

„Á Gaza er hörmulegt ástand sem varla er hægt að lýsa. Það verið að sprengja spítala, skóla Sameinuðu þjóðanna og íbúðarhús. Það er bara slátrun sem á sér stað þarna, það er bara þannig,“ segir Yousef, en stór hluti föðurfjölskyldu hans býr í Palestínu.

Yousef og Linda eru ánægð með viðbrögð íslenskra stjórnvölda við ástandinu í Palestínu, en vilja að leiðtogar stærri þjóða fari að láta til sín taka.
„Þetta snýst um að virða alþjóðalög og þær samþykktir sem alþjóðasamfélagið hefur sett. Annars eru þær tilgangslausar,“ segir Yousef.