Búið er að loka fyrir alla flugumferð yfir Austur-Úkraínu.
Flugmenn sem fyrirhuguðu að fljúga yfir landssvæðið þar sem flugvél Malaysia Airlines fórst fyrir skömmu hafa fengið fyrirmæli um að fljúga í mestu mögulegri hæð. Er það gert til að varna því að vélar þeirra hljóti sömu örlög og flug MH17.
Buk-flaugarnar sem taldar eru hafa grandað flugvélinni hafa takmarkaða drægni og ættu því ekki að geta hæft vélar í mikilli hæð.
Fjöldinn allur af flugvélum hafa einnig breytt um stefnu á síðustu mínútum til að komast hjá því að fljúga yfir austurhluta Úkraínu en þar geisa enn mikil átök milli aðskilnaðarsinna og úkraínska stjórnarhersins.
Að sögn Reuters-fréttastofunnar hafa Lufthansa og Air France ákveðið að sneiða alfarið hjá því að fljúga yfir átakasvæðið í Austur-Úkraínu. Hið rússneska Transaero tilkynnti skömmu síðar að það myndi gera slíkt hið sama.
MH17 var á leið frá Amsterdam til Kúala Lúmpúr og að sögn flugöryggissérfræðings á vegum CNN eru ferðir á milli borganna tveggja tíðar. Flugfélög sem fara þar á milli þurfa að hafa sérstakan vara á enda er hluti leiðarinnar sem fyrr segir yfir átakasvæðum.
Ekki má mikið út af bregða svo að ekki fari illa og þurfa flugmenn því að vera í miklum samskiptum við flugmálayfirvöld þegar flogið er yfir austurhluta Úkraínu.
Vél Malaysia Airlines var 17 ára gömul og flaug sína fyrstu ferð í júlí 1997.
BREAKING #MH17 Air India 116 flies almost directly over the area! pic.twitter.com/Ki7zPqifdi
— AirLiveNet (@airlivenet) July 17, 2014