„Aðilar frá Bandaríkjunum og Úkraínu telja að flugvélin hafi verið skotin niður. Ef svo reynist vera er það brot á alþjóðlegum lögum og gengur gróflega í berhögg við mannlegt velsæmi,“ var meðal þess sem hann sagði.
Lai sagði að verið væri að láta ættingja þeirra sem létust vita. Þegar því ljúki verði gefin út skrá yfir farþegana sem voru um borð. Hann sagði að tveir háttsettir malasískir aðilar myndu taka þátt í rannsókninni fyrir hönd þjóðarinnar.
Rætt hefur verið um flugleiðina sem valin var og sagði Lai fimmtán af sextán flugfélögum í Samtökum asískra flugfélaga við Kyrrahafið fljúga þessa leið reglulega. Hann sagði evrópsk flugfélög einnig velja að fara sömu leið og benti á að margar flugvélar hefðu verið á svipuðum slóðum áður en vélin var skotin niður.
Búið er að gefa út upplýsingar um MH17, flugvélina sem var skotin niður. Hún hafði aldrei bilað og stóðust öll tækin í vélinni prófanir sem gerðar voru á þeim.
Hér að neðan má sjá blaðamannafundinn í heild sinni.