Erlent

Rökstuddur grunur um að brakið sé úr vélinni

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Frá blaðamannafundi í gær.
Frá blaðamannafundi í gær. vísir/afp
Blaðamannafundi í Kúala Lúmpúr vegna flugvélar Malaysia Airlines sem hvarf þann 8. mars lauk fyrir skömmu, en Ástralar telja sig mögulega hafa fundið brak á gervitunglamyndum sem gæti verið úr vélinni.

Á fundinum kom fram að myndirnar hefðu líklega verið teknar snemma í morgun en það hefur ekki fengist staðfest.

Hishammuddin Hussein, settur samgönguráðherra Malasíu, sagði rökstuddan grun leika á að um malasísku vélina sé að ræða en enn sé ekki hægt að staðfesta það.

„Á meðan enn er von munum við halda leitinni áfram,“ sagði Hussein.

Átján skip og 29 loftför eru nú á leið að nýja leitarsvæðinu en nú er kvöld í Ástralíu og verður leitinni haldið áfram í nótt. Leitarskilyrði eru ekki góð, rigning og slæmt skyggni.

Brakið sem sást á gervitunglamyndunum flaut í sjónum um 1.550 mílum undan ströndum Perth, en það eru um 2.500 kílómetrar. Áströlsk leitarflugvél er nú þegar á staðnum.

Fulltrúi Malaysia Airlines á fundinum, Ahmad Jauhari Yahya, sagði að fengist staðfest að um flakið væri að ræða yrðu ráðstafanir gerðar til þess að koma aðstandendum farþeganna til Ástralíu.

Gervitunglamyndin sem birt var í morgun.

Tengdar fréttir

Brak úr vélinni mögulega fundið á Indlandshafi

Ástralar telja sig mögulega hafa fundið brak á gervitunglamyndum sem gæti verið úr Boeing þotu Malaysian Airlines sem hvarf þann áttunda mars síðastliðinn með 239 manns innanborðs skömmu eftir flugtak frá Kuala Lumpur.

Óttast að 239 séu látnir

Forsætisráðherra Malasíu segir of snemmt að kalla hvarf farþegaþotunnar í dag hryðjuverk.

Ástralar sjá um leit á hluta svæðisins

Yfirvöld í Ástralíu hafa lýst því yfir að þau muni hafa yfirumsjón með leitinni á svokölluðu Suður-svæði að Malasísku Boeing þotunni sem hvarf fyrir rúmri viku. Leitarsvæðinu hefur nú verið skipt í tvennt eftir að ljóst varð að vélinni var flogið áfram í langan tíma eftir að merki hættu að berast frá henni.

Farþegavél hvarf af ratsjá

Víðtæk leit stendur yfir á Suður- Kínahafi að farþegaþotu Malaysian Airlines sem hvarf af radar í gærkvöldi. 239 manns voru um borð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×