Óttast er að 239 manns séu látnir eftir að flugvél Malaysia Airlines hvarf í dag. Olíurákir hafa sést á hafi úti að sögn víetnamskra stjórnvalda og gætu þær gefið vísbendingu um að vélin hafi hrapað í hafið.
Hvorki tangur né tetur hefur fundist af vélinni þrátt fyrir ítarlega leit í Suður-Kínahafi í dag. Óvenjulegt þykir að veðurskilyrði voru ekki slæm á svæðinu þegar vélin hvarf og engin neyðarköll bárust.
Fyrr í dag var staðfest að tveir farþega flugvélarinnar ferðuðust með vegabréfum sem voru tilkynnt stolin í Taílandi í fyrra og hittífyrra. Ekki er víst hvernig mönnunum tveimur tókst að komast um borð vélarinnar á löngu stolnum skilríkjum.
Najib Razak, forsætisráðherra Malasíu, sagði blaðamönnum í dag að það væri of snemmt að segja til um hvort um hryðjuverk hafi verið að ræða.
