Kosningarnar eru hluti samkomulags sem ætlað er að binda enda á átökin sem geisað hafa í landinu undanfarna daga og kostað hafa tugi manna lífið.
Samkomulagið var undirritað í dag af Janúkovítsj forseta og þremur leiðtogum stjórnarandstöðunnar.
Úkraínska þingið samþykkti með miklum meirihluta atkvæða að taka upp stjórnarskrá landsins frá árinu 2004 og minnka völd forsetans við það. Tekur stjórnarskráin gildi innan tveggja sólarhringa. Þá verður þjóðstjórn skipuð innan tíu daga.
Rannsókn mun fara fram á ofbeldisverkum síðustu daga og verður sú rannsókn unnin í samvinnu við yfirvöld, stjórnarandstöðuna og Evrópuráðið.
Mikið mannfall var í höfuðborginni Kænugarði í gær og fyrradag, og eru hátt í hundrað manns sagðir látnir eftir götubardaga á milli mótmælenda og lögreglumanna. Tölur af mannfalli eru þó á reiki.



