Baráttufólk fyrir réttindum samkynhneigðra blæs til mótmæla, nú tveimur dögum fyrir setningu Vetrarólympíuleikanna í Sotsjí.
Mótmælin fara fram víða um heim í að minnsta kosti 19 borgum og má þar nefna Lundúni, New York, París og Pétursborg. Er ætlun mómælanna að hvetja styrktaraðila leikanna til þess að fordæma hin umdeildu lög í Rússlandi, þar sem bannað er að tala opinberlega um samkynhneigð, en lögin voru sett í fyrra.
Styrktaraðilar leikanna eru margir, og þeirra á meðal eru fyrirtæki á borð við McDonald's, Coca-Cola, Visa og Samsung.
Vladimír Pútín, forseti Rússlands, lét hafa það eftir sér í síðasta mánuði að samkynhneigðir væru velkomnir á Ólympíuleikanna, en þeir þyrftu að „láta börnin í friði“.
Mótmælt víða um heim vegna Vetrarólympíuleikanna
Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
