Handbolti

Rússar unnu Serba og Króatar eru komnir áfram

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Úr leik Króata og Svartfellinga í dag.
Úr leik Króata og Svartfellinga í dag. Mynd/AFP
Rússar og Króatar unnu sína leiki á Evrópumótinu í handbolta í kvöld. Rússar unnu tveggja marka sigur á Serbum í C-riðli en Króatar eru komnir áfram upp úr D-riðli eftir fimm marka sigur á nágrönnum sínum í Svartfjallalandi.

Króatar eru komnir áfram í milliriðil eftir 27-22 sigur á Svartfellingum. Króatíska liðið hefur unnið tvo fyrstu leiki sína á mótinu en liðið vann ellefu marka sigur á Hvít-Rússum í fyrsta leik.

Svartfjallaland hefur tapað tveimur fyrstu leikjum sínum en mæta Hvít-Rússum í úrslitaleik um sæti í milliriðlinum í lokaumferðinni.

Króatar voru bara einu marki yfir í hálfleik, 13-12, en sýndu styrk sinni í seinni hálfleiknum sem liðið vann 14-10.

Ivan Cupic skoraði sex mörk fyrir Króatíu en Manuel Strklek sem skoraði fjögur mörk var kosinn besti leikmaður liðsins. Vasko Sevaljevic var markahæstur hjá Svartfellingum með níu mörk.

Rússar, sem Íslendingar unnu á æfingamótinu í Þýskalandi fyrir mót, unnu tveggja marka sigur í spennuleik á móti Serbum, 27-25. Staðan var 14-14 í hálfleik en Rússar tóku frumkvæðið með því að skora tvö fyrstu mörkin í seinni hálfleiknum.

Serbar unnu eins marks sigur á Pólverjum í fyrstu umferðinni en tókst ekki að tryggja sig áfram í dag. Rússar komu hinsvegar sterkir til baka eftir sjö marka tap í fyrsta leik á móti Frökkum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×