Sport

Ásdís færði ÍSÍ áritaða mynd af sér

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ásdís Hjálmsdóttir.
Ásdís Hjálmsdóttir. Mynd/Arnaldur
Spjótkastarinn Ásdís Hjálmsdóttir kom í heimsókn á Skrifstofu Íþróttasambands Íslands í gær og færði sambandinu gjöf en þetta kemur fram á heimasíðu ÍSÍ.

Ásdís Hjálmsdóttir gaf sambandinu áritaða mynd af sér með kveðju og þökkum fyrir stuðninginn á árinu 2013. Líney Rut Halldórsdóttir framkvæmdastjóri ÍSÍ tók við gjöfinni.

Ásdís æfir nú í Sviss undir leiðsögn þjálfarans Terry McHugh en hún er þar einnig við nám. Annað ár hennar með McHugh er nú að hefjast og vonandi tekst henni betur upp en á síðasta ári þegar þjálfaraskiptin höfðu greinileg áhrif.

Ásdís Hjálmsdóttir varð í 35. sæti yfir besta árangurinn í spjótkasti kvenna á árinu 2013 en hún kastaði lengst 59,97 metra í júní.

Íslandsmet Ásdísar er frá Ólympíuleikunum í London þegar hún kastaði spjótinu 62,77 metra í undankeppninni og fór beint í úrslit. Ásdís varð í sextánda sæti á heimslistanum í spjótkasti kvenna fyrir árið 2012.

Ásdís Hjálmsdóttir og Líney Rut Halldórsdóttir.Mynd/Heimasíða ÍSÍ



Fleiri fréttir

Sjá meira


×