Þrátt fyrir að framboð á afþreyingarefni hafi aukist stórum skrefum síðustu ár, meðal annars með tilkomu efnisveita á borð við Netflix og aukins ólöglegs niðurhals, hefur áhorf á dagskrá sjónvarpsstöðvanna ekki dregist saman. Þetta segja forsvarsmenn stöðvanna og byggja á svokölluðum PPM-mælingum hjá Capacent.
Freyr Einarsson, sjónvarpsstjóri 365, móðurfélags Fréttablaðsins, segir að samkvæmt áhorfsmælingum sé ekki að merkja neinar stórar breytingar.
„Við erum með fleiri áhorfendur á stöðvarnar okkar núna en á sama tíma í fyrra. Það má að einhverju leyti rekja til þess að við bættum við einni stöð hjá okkur en við settum líka aukinn kraft í íslenska dagskrárgerð í haust og finnum að áhorfendur kunna að meta það.“
Auk þess segir Freyr að afkoman af sjónvarpsrekstri 365 í ár líti út fyrir verða betri en á síðasta ári og eins séu áskriftartölur sambærilegar við síðasta ár. Netflix og aðrar veitur hafi því ekki mikil áhrif á línulegt áhorf að hans mati.
„Raunar er það mitt mat að Netflix, sem er í grunninn vídeóleiga, sé að koma verst niður á leigunum. Ég er líka á því að leigurnar hafi á sínum tíma verið miklu stærri en Netflix er í dag.“
Friðrik Friðriksson, framkvæmdastjóri Skjásins, tekur í sama streng og segir breytingarnar óverulegar.
„Ég held að við séum á svipuðu róli og verið hefur síðustu tvö árin. Þetta er kannski ekki beint vaxtamarkaður en hefur haldið sér. Það er okkar reynsla alla vegana.“
Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri á RÚV, segir þessa þróun hafa haft hvað minnst áhrif á RÚV.
„Það er aðallega vegna þess að efnisúrvalið hjá okkur er hvað frábrugðnast því sem er í boði, til dæmis á Netflix. Það er auðvitað ekkert innlent efni þar, þannig að bein áhrif á áhorf hjá okkur eru óveruleg.“
Skarphéðinn bætir því við að til lengri tíma litið geti efnisveitur haft áhrif á áhorf á útsendingar, en þá helst hvað varðar erlenda sjónvarpsþætti.
„Því verður þá mætt með aukinni innspýtingu í innlenda dagskrárgerð og það er kannski jákvæð þróun.“
Netflixvæðing skaðar ekki sjónvarpsáhorf
Þorgils Jónsson skrifar

Mest lesið



Svava Lydia komin í leitirnar
Innlent



Lýsa eftir Svövu Lydiu
Innlent


ÍR kveikti á skiltinu án leyfis
Innlent

