Fótbolti

Stærsti leikur sem ég hef spilað á ævinni

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sam Tillen í leik með FH.
Sam Tillen í leik með FH. Mynd/Valli
„Eftir úrslitin í Vín eigum við ágæta möguleika. Kvöldið sem við slógum út Ekranas var yndislegt og það væri frábært að fá að upplifa slíkt kvöld aftur,“ segir Sam Tillen, leikmaður FH. Englendingurinn verður í eldlínunni með félögum sínum í dag gegn austurrísku meisturunum í Austria Vín.

FH tapaði fyrri leiknum ytra 1-0 þar sem liðið lá til baka og skapaði sér ekki mörg færi.

„Á meðan við verjumst vel og höldum okkur inni í leiknum eigum við möguleika.“ Miklir fjármunir eru í húfi fyrir leik kvöldsins. Félagið sem kemst áfram verður hundruðum milljóna ríkara, tryggir sér sæti í riðlakeppni Evrópudeildar og er einu skrefi frá riðlakeppni Meistaradeildarinnar.

„Þetta snýst ekki bara um peninga. Leikmenn vilja láta drauma sína rætast,“ segir Sam um það sem í húfi er. Um einstakt tækifæri sé að ræða fyrir leikmenn FH segir bakvörðurinn, sem minnist aftur kvöldsins þegar FH sló út Ekranas í Kaplakrika.

„Maður minnist sigurtilfinningarinnar sem maður upplifir á slíkum kvöldum,“ segir Sam, sem var á sínum tíma á mála hjá Chelsea og spilaði með unglingalandsliði Englands.

„Hvað mig varðar er þetta stærsti leikur sem ég hef spilað á ævinni,“ segir Sam. Hann spilaði í fimm ár með Fram en skipti yfir í FH fyirr þetta tímabil. Leikurinn hefst klukkan 16 í dag og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×