Fótbolti

Þeir eru ekki með lélegra lið en við

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hannes þór mun væntanlega standa í markinu gegn Slóvenum.
fréttablaðið/daníel
Hannes þór mun væntanlega standa í markinu gegn Slóvenum. fréttablaðið/daníel

„Maður skilur að lið fari í landsleik á móti Íslandi og ætli sér sigur. Við erum yfirleitt minna liðið og fámennari þjóðin. En nú er það þannig að íslenska landsliðið er mjög sterkt,“ segir Hannes Þór Halldórsson, landsliðsmarkvörður Íslands.

Ísland tekur á móti Slóveníu á Laugardalsvelli annað kvöld. Landsliðsþjálfari Slóvena, Srecko Katanec, sagði í viðtali á dögunum að það væri sanngjörn krafa til leikmanna sinna að leggja Ísland að velli.

„Þótt menn geri kröfur um að sigra okkur gerum við kröfur til okkar sjálfra. Við getum farið inn í leiki með kassann úti og ætlast til þess að standa uppi í hárinu á hverjum sem er. Við unnum á þeirra heimavelli og förum að sjálfsögðu inn í þennan leik með það að markmiðið að vinna leikinn.“

Með sigri kæmist Ísland í toppsæti riðilsins í sólarhring að minnsta kosti.

„Það myndi setja okkur í mjög skemmtilega stöðu. Við eigum góða möguleika, það er augljóst, en þeir koma dýrvitlausir í þennan leik. Ef það var eitthvað vanmat af þeirra hálfu í síðasta leik er það ekki lengur,“ segir Hannes og vísar til 2-1 sigurs Íslands í fyrri leiknum í Ljubljana.

Birkir Bjarnason, miðjumaður liðsins, tekur undir orð Hannesar.

„Því má ekki gleyma að þeir eru með hörkulið, ekki lélegra lið en við. Við þurfum að spila okkar besta leik og vona það besta,“ segir Birkir, sem telur möguleika Íslands góða.

Gylfi Þór Sigurðsson skoraði bæði mörkin í sigrinum ytra en hann er í leikbanni á morgun.

„Við höfum sýnt það áður að við getum spilað góðan fótbolta án Gylfa. Auðvitað er hann lykilmaður en við erum með menn sem geta fyllt í skarðið. Við verðum að treysta á að þeir geri það.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×