Kristín segir heimsóknir stjórnmálaflokka á spítalann hafi ekki nokkur einustu áhrif á sig, jafnvel þótt hún sé enn óákveðin í afstöðu sinni til komandi kosninga.
Þingmenn Samfylkingarinnar í Reykjavík suður, þau Sigríður Ingibjörg, formaður velferðarnefndar og oddviti flokksins, og Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, heimsóttu starfsmenn LSH í hádeginu í gær og spjölluðu við þá yfir steiktum fiski og gúrkusósu. Sigríður sagði í kynningu sinni að velferðarkerfið hefði staðið af sér hrunið.
„Það er merkilegt að gjaldmiðillinn og fjármálakerfið hrundi hér haustið 2008, en það kerfi sem hrundi ekki var velferðarkerfið. Það sýndi sig að heilbrigðiskerfið, menntakerfið og aðrir partar velferðarkerfisins stóðu eins og ekkert hefði í skorist,“ sagði Sigríður.

„Hún hefur þá ekki heyrt það sem fyrrverandi forstjóri spítalans sagði; þegar hún tók við var spítalinn gjaldþrota. Ef hún segir að velferðarkerfið hafi ekki hrunið þá er hún á svolítið veikum ís,“ segir hann. Einar hefur þó skilning á því að flokkarnir komi á vinnustaði og kynni stefnumál sín.
„Ætli þeir verði ekki að gera þetta, blessaðir. Maður skilur þetta upp að vissu marki, en þetta er auðvitað truflandi og ég trúi ekki að þetta hafi nokkur einustu áhrif á afstöðu fólks.“

Maria Sastre starfar sem eðlisfræðingur á LSH. Hún er frá Spáni og fær ekki kosningarétt fyrr en á næsta ári.
„Ég þarf því miður að bíða, en ég hef aðeins fylgst með þó að ég hafi ekki tekið hundrað prósenta afstöðu,“ segir Maria. Hún lítur heimsóknir stjórnmálaflokka á matmálstíma starfsmanna jákvæðum augum. „Fólk er samt að reyna að borða og sumum finnst þetta truflandi. En persónulega finnst mér þetta rétt, að koma og tala. En kannski vantar meira samtal á milli fólksins og stjórnmálamannanna.“
Sigríður Ingibjörg og Helgi buðu upp á spurningar að lokinni kynningu sinni en enginn nýtti sér þann kost. Þau gengu því á milli borða og ræddu við starfsmenn um helstu stefnumál flokksins áður en þau héldu áfram baráttu sinni í borginni.
Enginn tími til að kynna sér framboðin
Fjórir sjúkraliðanemar sátu að snæðingi á meðan Sigríður og Helgi gerðu sig klár fyrir kynninguna. Þeir hafa ekki haft tíma til að kynna sér kosningabaráttuna undanfarnar vikur, enda bæði í námi og vinnu. Konurnar fjórar ætla allar að kjósa en engin þeirra hefur þó tekið ákvörðun um hvert atkvæði þeirra ratar á kjördag.
„Ætli það verði ekki sá sem lýgur minnst,“ segir Sigríður Þorgilsdóttir, einn nemanna. „Maður verður að fara að skoða þetta. Ætli svona fundir séu ekki bara ágætir fyrir upptekið fólk eins og okkur, ákveðin kynning og fræðsla.“