Erlent

Allur máttur í smíði kjarnavopna

Leiðtoginn Kim Jong-un greiðir eigin tillögu atkvæði í norðurkóreska þinginu á laugardag.
Leiðtoginn Kim Jong-un greiðir eigin tillögu atkvæði í norðurkóreska þinginu á laugardag. fréttablaðið/ap
Stjórnvöld í Norður-Kóreu hafa brugðist illa við heræfingum Bandaríkjanna og Suður-Kóreu og viðskiptaþvingunum Sameinuðu þjóðanna. Hótanir um beitingu kjarnavopna gegn sunnanmönnum og Bandaríkjunum heyrast nú nánast daglega að norðan.

Leiðtogi Norður-Kóreu, Kim Jong-un, kallaði þjóðþingið saman í gær og lýsti því yfir að nú væri allur máttur ríkisins settur í að smíða kjarnavopn og viðhalda efnahag landsins. Ástæðuna segir hann vera stærð herliðs Bandaríkjanna handan landamæranna í suðri.

Stríðsgreinendur segja þó árás að norðan ólíklega því harka Norður-Kóreu sé frekar bragð til að fá nýja ríkisstjórn í Suður-Kóreu til að beita mýkri aðgerðum gegn sér. Þá sé verið að reyna að hafa betur í diplómatískum viðræðum við Bandaríkin og festa nýjan og ungan leiðtoga Norður-Kóreu betur í sessi.

Á laugardag tilkynntu stjórnvöld í Pjongjang, höfuðborg Norður-Kóreu, að stríðsástand ríkti í samskiptum ríkjanna á Kóreuskaga. Í tilkynningu frá ríkisfréttastofunni var sagt að allar ögranir á landamærum ríkjanna myndu nú leiða til átaka og beitingar kjarnavopna.

Vopnahlé hefur ríkt milli ríkjanna tveggja í tæp 60 ár en Kóreustríðinu lauk um mitt ár 1953. Síðan hafa samskipti ríkjanna verið verulega stirð. Bandaríkjamenn hafa jafnframt haft fast herlið í Suður-Kóreu frá stríðslokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×