Körfubolti

Langan tíma tók að koma Martin aftur í fingurlið

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Martin skoraði 13 stig í kvöld.
Martin skoraði 13 stig í kvöld.
„Þetta var mjög vont. Ég neita því ekki. Þægilegt samt þegar hann small í,“ sagði Martin Hermannsson eftir sigur KR-inga á Þórsurum í Domino's-deild karla í körfubolta í kvöld.

Bakvörðurinn fór úr fingurlið í síðari hálfleik og virtist ætla að taka óratíma að kippa honum í liðinn.

„Það tók 15-20 mínútur,“ sagði Martin í leikslok en um litla fingur á vinstri hönd var að ræða. Svo fór að kalla þurfti til læknismenntaðan mann úr hópi áhorfenda til að klára dæmið.

Þótt sársaukinn hafi verið mikill sagðist Martin ekki hafa fellt nein tár.

„Maður reyndi að halda cool-inu,“ sagði kappinn léttur.

Sigur KR-inga var afar þægilegur í kvöld og lykilmenn á borð við Martin og Pavel Ermolnskij þurftu óvenjulítið að hafa sig í frammi. Martin segist hafa átt von á sterkara Þórsliði en eftir skrýtnar upphafsmínútur hafi sínir menn fundið taktinn og aldrei verið spurning.

KR-ingar eru ósigraðir í deildinni og líklegir til afreka.

„Þetta verður aldrei 'walk in the park'. Við finnum samt alveg fyrir pressunni. Hún er alltaf í Vesturbænum. Fólk vill titil og við ætlum að taka hann. Eftir að við duttum út úr bikarnum erum við enn ákveðnari í að taka Íslandsmeistaratitilinn.“

Umfjöllun um leikinn í kvöld má sjá hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×