Viðskipti innlent

Bingó-áætlun Seðlabankans: Vilja 75% afslátt á krónueignum föllnu bankanna

UE skrifar
Bjarni Benediktsson sagði í síðustu viku að ef menn „stilla saman væntingar“ og „horfa á hlutina sömu augum“ ætti að vera hægt að leysa mikilvægustu viðfangsefni í sambandi við afnám fjármagnshafta á næstu 6-12 mánuðum.
Bjarni Benediktsson sagði í síðustu viku að ef menn „stilla saman væntingar“ og „horfa á hlutina sömu augum“ ætti að vera hægt að leysa mikilvægustu viðfangsefni í sambandi við afnám fjármagnshafta á næstu 6-12 mánuðum.
Seðlabanki Íslands vinnur þessa dagana að áætlun sem ber vinnuheitið Bingó. Samkvæmt henni verða nauðasamningar við kröfuhafa Glitnis og Kaupþings ekki samþykktir nema 400 milljarða krónueignir þrotabúanna fáist keyptar með 75% afslætti. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

Í svarbréfi Más Guðmundssonar seðlabankastjóra til slitastjórnar Glitnis frá því í lok september segir hann þetta ekki vera samningsatriði. Seðlabankinn sé aftur á móti tilbúinn til að skoða „útfærðar hugmyndir“ sem ógni ekki fjármálastöðugleika Íslands. Náist ekki samningar um þetta við kröfuhafa er óraunhæft að hægt verði að veita undanþágu frá gjaldeyrislögum til að greiða kröfuhöfum í erlendri mynt.

Bingó-áætlunin gerir ráð fyrir því að Seðlabankinn, og mögulega lífeyrissjóðirnir, kaupi kröfur búanna á innlenda aðila fyrir 25% af bókfærðu virði í skiptum fyrir gjaldeyri. 

Stærstu eignir þrotabúanna eru hlutir í Íslandsbanka og Arionbanka. Ekkert hefur gengið að selja þær eignir til erlendra fjárfesta og ekki útlit fyrir að það breytist. Svo virðist sem kröfuhafar græði ekki á því að málið tefjist. Þeir hafa áhyggjur af því að ef ekki tekst að ljúka nauðasamningum verði þrotabúin sett í formlegt greiðsluþrot og kröfuhafar fái aðeins greitt í íslenskum krónum. Ef marka má nýlegan dóm Hæstaréttar hafa almennir kröfuhafar ekki lagalegan rétt á greiðslum í erlendri mynt.

Stjórnvöld gera kröfu um þessi skilyrði fyrir nauðasamningum samkvæmt heimildum Morgunblaðsins.

Þessi áætlun leysir ekki nema hluta vandans við að afnema fjármagnshöft. Þessi áætlun á aðeins við um krónueignir Glitnis og Kaupþings. Þessar aðgerðir gætu skapað fordæmi fyrir samningum við aflandskrónueigendur. Einnig þarf að lengja verulega í erlendum lánum Landsbankans að andvirði 300 milljarða íslenskra króna sem eiga samkvæmt núverandi skilyrðum að greiðast upp árið 2018. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×