Körfubolti

Umfjöllun og viðtöl: Grindavík - KR 74-94 | Meistaraefnin i stuði

Árni Jóhannsson skrifar
Meistaraefnin í KR völtuðu yfir Íslandsmeistara Grindavíkur er Vesturbæingar komu í heimsókn í Röstina í kvöld.

Grindvíkingar byrjuðu leikinn betur og voru komnir í fjögurra stiga forskot þegar 3:15 voru eftir af fyrsta leikhluta. Þá hertu gestirnir varnarleik sinn, söxuðu niður lítið forskot heimamanna og komust svo yfir þegar rúmar tvær mínútur eftir. Þeir héldu forskotinu út leikhlutann og endaði hann 16-21 KR í vil.

Í upphafi annars leikhluta hélt góður varnarleikur gestanna áfram og þegar hálfleikurinn var tæplega hálfnaður voru þeir komnir í 13 stiga forskot. Með góðum varnarleik var létu gestirnir úr Vesturbænum boltann ganga vel í sókninni og uppskáru mjög auðveldar körfur, bæði með gegnumbrotum og opnum skotum sem rötuðu rétta leið. Grindvíkingum gekk illa að komast inn í teig KR-inga á þessum tímapunkti en Ólafur Ólafsson kunni svo sannarlega ráð við því og setti niður langa þriggja stiga körfu þegar 4:21 lifðu af hálfleiknum. Kveikti það í heimamönnum og fóru þeir á 11-0 sprett þannig að forskot gestanna var einungis fjögur stig, 31-35 þegar tæpar tvær mínútur voru eftir af hálfleiknum. Liðin skiptust þá á að skora seinustu andartökin og lauk hálfleiknum 34-40 gestunum í vil.

Atkvæðamestu menn í hálfleik voru þeir Ólafur Ólafsson með níu stig, það voru hinsvegar sannkölluð stuðstig, tvær troðslur og ein góð þriggja stiga. Hjá KR var Shawn Atupem með 12 stig og fór mikið fyrir honum í vítateig Grindvíkinga.

Stigahæsti leikmaður KR í hálfleik byrjaði síðari hálfleikinn vel og skoraði hann sex af fyrstu sjö stigum gestanna í hálfleiknum. Hann leit mjög vel út í sóknarleiknum í kvöld og gæti hann orðið sterkt vopn fyir KR-ingana í vetur. Lið KR byrjaði seinni hálfleikinn af sama krafti og þeir enduðu þann fyrri og var staðan orðin 42-54 þeim í vil þegar þriðji leikhlutinn var hálfnaður. Grindvíkingar vöknuðu á þessum tímapunkti til lífsins og náðu 8-0 spretti sem lagaði stöðuna í 50-54 þegar þrjár mínútur voru eftir af leikhlutanum. Liðin skiptust á að skora seinustu mínúturnar og var KR með sjö stiga forystu þegar flautan í lok þriðja leikhluta 55-62 fyrir lokaleikhlutann.

Heimamenn opnuðu fjórða leikhlutann á stórri þriggja stiga körfu og ætla mátti að þeir ætluðu að gera seinasta fjórðunginn að alvöru keppni. KR-ingar áttu hinsvegar alltaf svör við áhlaupum Grindvíkinga og þegar leikhlutinn var hálfnaður voru gestirnir komnir með níu stiga forystu.

Sóknarleikur KR rúllaði vel lokamínúturnar í leiknum og fengu þeir ansi margar auðveldar körfur úr góðu spili. Á hinum enda vallarins þjörmuðu þeir vel að Grindvíkingum sem komust hvorki lönd né strönd í sínum aðgerðum. Þegar rúm mínúta var eftir var munurinn kominn í 20 stig, 72-92 og báðir þjálfarar sendu inn yngri leikmenn seinustu mínútuna. Leikurinn fjaraði út og góður sigur gestanna öruggur.

Eins og áður segir gekk boltinn vel í sóknarleik KR og varnarleikurinn var á köflum mjög kröftugur. Shawn Atupem var góður í þessum fyrsta leik sínum fyrir þá röndóttu og skilaði 27 stigum og lítur út fyrir að geta orðið flott vopn í sóknarleik þeirra í vetur. Martin Hermannsson kom einnig vel inn í leik gestanna og skilaði 18 stigum og 4 stoðsendingum þar að auki. Fimm leikmenn KR skoruðu 10 stig eða meira og Pavel hirti 13 fráköst þannig að liðsheild þeirra lítur vel út. Stigahæstir heimamanna voru bræðurnir Þorleifur og Ólafur Ólafssynir en þeir skoruðu 16 og 15 stig. Að auki skilaði Kendall Timmons tvöfaldri tvennu, 14 stig og 10 fráköst.

Finnur Stefánsson: Þegar þú þjálfar KR er liðsvalið eintómur hausverkur

Strax eftir leik var Finnur Stefánsson, þjálfari KR, spurður að því hvað það var sem skóp sigur hans manna í leiknum í kvöld. „Mér fannst liðsheildin vera sterk. Shawn kemur flottur inn í fyrsta leik og þrátt fyrir að það hafi verið dálítill haustbragur á þessum leik þá fannst mér mjög sterkt að við héldum haus allan tímann og kláruðum þetta sterkt.“

„Engin spurning að þetta gefi góð fyrirheit fyrir veturinn“, sagði Finnur um áhrif þessa fyrsta sigurleiks í Grindavík í kvöld. „Við eigum samt sem áður langt í land og fullt af hlutum sem þarf að fínpússa. Við hikstuðum hérna oft á tíðum í kvöld sem ég var ósáttur við en það er eitthvað sem við þjálfararnir þurfum að vinna úr og reyna að bæta liðið. Vonandi verður þetta ekki seinasti 20 stiga sigur liðsins í vetur.“

Finnur var virkilega ánægður með framlaga Martins Hermannssonar í leiknum. „Martin er gríðarlega öflugur leikmaður. Það var hans hlutskipti í dag að byrja leikinn á bekknum og hann gerir eins og sannur keppnismaður gerir og svarar kallinu. Hann er algjör lykilleikmaður hjá okkur í vetur og ég er gríðarlega spenntur að sjá hvernig hans framganga verður í vetur.“ Aðspurður hvort Martin væri að valda hausverk í liðsvali Finns, sagði hann: „Þegar þú ert að þjálfa KR er það eintómur hausverkur og ég vona að ég fái þá sem flesta. Það er mitt verkefni og Skúla að leysa þá.“

Sverrir Sverrisson: Þurfum að gera betur ef við ætlum að gera eitthvað í vetur

„Vörnin hjá okkur var arfaslök, við gátum ekki haldið neinu fyrir framan okkur og KR-ingarnir komust þar sem þeir vildu. Það voru helstu vandamálin í kvöld“, sagði Sverrir Sverrisson, þjálfari Grindvíkinga um það sem fór úrskeiðis hjá liðinu í kvöld.

„Við tókum nokkra góða kafla sem dugðu ekki en það er ekki nóg að það séu tveir til þrír menn sem eru að spila vörn og berjast. Það þarf að fá allt liðið upp á tærnar. Þetta var bara virkilega dapurt hjá okkur og leiðinlegt að byrja svona illa í fyrsta leik.“

Grindvíkingar áttu í erfiðleikum með að stöðva nýja bandaríkjamannin hjá KR, Shawn Atupem og var Sverrir spurður að því hvort hann hafi komið þeim í opna skjöldu. „Ég vissi bara að þetta væri góður leikmaður, ég var aðeins búinn að skoða hann. Hann kom kannski okkur ekki á óvart þar sem ég vissi lítið um hann, nema tölfræði hans frá fyrri tímabilum en hann var náttúrulega frábær hjá þeim og var okkur mjög erfiður. Það var samt ansi margt sem klikkaði hjá okkur varnarlega í kvöld og verðum við bara að byrja að vinna í því strax fyrir næsta leik. Við þurfum að gera miklu betur en þetta ef við ætlum að gera einhverja hluti í vetur.“

Hér að neðan má sjá leiklýsingu leiksins.

Grindavík-KR 74-94 (16-21, 18-19, 21-22, 19-32)

Grindavík: Þorleifur Ólafsson 16, Ólafur Ólafsson 15/5 fráköst, Kendall Leon Timmons 14/10 fráköst, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 12/12 fráköst, Hilmir Kristjánsson 10, Jón Axel Guðmundsson 4, Björn Steinar Brynjólfsson 2, Jóhann Árni Ólafsson 1, Ármann Vilbergsson 0, Ómar Örn Sævarsson 0, Jens Valgeir Óskarsson 0, Daníel Guðni Guðmundsson 0.

KR: Shawn Atupem 27, Martin Hermannsson 18, Brynjar Þór Björnsson 14, Helgi Már Magnússon 10/9 fráköst/5 stoðsendingar, Darri Hilmarsson 10, Pavel Ermolinskij 7/13 fráköst, Ingvaldur Magni Hafsteinsson 6, Jón Orri Kristjánsson 2, Kormákur Arthursson 0, Ólafur Már Ægisson 0, Högni Fjalarsson 0, Vilhjálmur Kári Jensson 0.

Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Rögnvaldur Hreiðarsson, Jón  Guðmundsson

Áhorfendur: 474

4. leikhluti | 74-94: Leiknum lýkur með sannfærandi sigri KR. Þetta var samt sem áður hörkuleikur en gestirnir sýndu á lokaminútunum hvers þeir eru megnugir.

4. leikhluti | 72-94: Bæði lið gefa yngri leikmönnum sénsinn seinustu 40 sekúndurnar.

4. leikhluti | 72-92: Seinustu mínútur hafa verið flottar hjá KR og sést það í stigamuninum. 1:10 eftir.

4. leikhluti | 69-84: KR lætur boltann ganga vel í sókninni og það skilar körfu. Þeir stela síðan boltanum og Ólafur Ólafsson kemur í veg fyrir lay-up með óíþróttamannslegri villu. Darri nýtir bæði vítin. 2:22 eftir.

4. leikhluti | 69-79: Martin Hermannsson með flotta þriggja stiga körfu, hann hefur átt flottan leik. Aftur er leikhlé tekið þegar 3:19 eru eftir.

4. leikhluti | 67-76: Siggi Þorsteinss. setur niður tvö víti. 4:20 eftir.

4. leikhluti | 65-76: Leikhlé tekið þegar 4:37 eru eftir af leiknum og KR er með 12 stiga forustu. Gestirnir hafa sýnt góðan leik undanfarnar mínútur.

4. leikhluti | 65-74: Heimamenn byrjuðu leikhlutann örlítið betur en KR er núna að síga aftur framúr. 5:30 eftir.

4. leikhluti | 65-72: Mikið skorað þessa stundina í Grindavík, maður hefur varla undan. 6:12 eftir.

4. leikhluti | 61-65: Helgi Magnússon svarar þrist með þrist en heimamenn svara í sömu mynt. 8:25 eftir.

4. leikhluti | 58-62: Seinasti leikhlutinn er hafinn og heimamenn opna hann með þriggja stiga skoti. 9:33 eftir.

 

3. leikhluti | 55-62: Pavel bætti við tveimur stigum og Grindavík stillti upp í seinasta skotið, það geigaði og leikhlutinn kláraðist. Þessi leikur er langt frá því að vera búinn, menn eru orðnir vel heitir.

3. leikhluti | 55-60: Ólafur Ólafsson með risaþrist en Shawn Atupem var fljótur að svara fyrir KR. Pavel er nú á vítalínunni og misnotar annað vítið. 1:15 eftir.

3. leikhluti | 50-55: Vítanýtingin hér í kvöld er búin að vera afleit hjá báðum liðum. 2:41 eftir.

3. leikhluti | 50-54: Þorleifur Ólafsson kveikir í áhorfendum í Grindavík með fallegri þriggja stiga körfu. 3 mín. eftir.

3. leikhluti | 47-54: Fallegt gegnumbrot hjá Sigurði Þorsteinss. Sjö stiga munur þegar 3:33 eru eftir.

3. leikhluti | 42-54: Pavel Ermolinski kemur sér loksins á blað. Villa og karfa góð og nýtir síðan vítið. 4:50 eftir.

3. leikhluti | 42-51: Aftur er Ólafur Ólafs. að setja stórann þrist. 5 mín. eftir.

3. leikhluti | 39-49: Sverrir þjálfari heimamanna tekur leikhlé þegar 5:44 eru eftir. Grindvíkingum gengur illa að stöðva sóknir KR og eru að gera mistök í sóknarleik sínum.

3. leikhluti | 39-47: Munurinn er 8 stig þegar 6:35 eru eftir. Siggi Þorsteins. með góða körfu.

3. leikhluti | 36-47: Shawn Atupem lítur vel út sóknarlega, hann hefur skorað 6 af 7 stigum KR í seinni hálfleik. 7:10 eftir.

3. leikhluti | 34-45: Þorleifur Ólafsson fær tæknivillu fyrir kjaftbrúk og KR-ingar nýta annað vítið 8:05 eftir.

3. leikhluti | 34-42: Leikhlutinn er hafinn og Shawn Atupem skorar fyrstu stigin. 9:13 eftir.

2. leikhluti | 34-40: Leikhlutanum lokið. KR-ingar reyndu seinasta skotið og flautan gall. Sex stiga forskot gestanna í hálfleik. Það er nóg af körfubolta eftir í kvöld.

2. leikhluti | 34-40: Grindvíkingar stilltu upp í eitt skot í lok leikhlutans og reyndi Timmons gegnumbrot. Brotið var á honum og nýtti hann hvorugt vítið. KR fær boltann og tekur leikhlé þegar 2 sekúndur eru eftir.

2. leikhluti | 33-40: KR-ingar náðu að setja stig á töfluna, fyrst Darri Hilmarss. og svo Brynjar Björns. með svakalegan þrist. 55 sek. eftir.

2. leikhluti | 31-35: Sprettur Grindvíkinga kominn í 11-0. 1:55 eftir.

2. leikhluti | 29-35: Finni, þjálfara KR, lýst ekki á blikuna og tekur leikhlé þegar 2:50 eru eftir.

2. leikhluti | 29-35: Flottur sprettur hjá 9-0 Grindvíkingum núna. 3:10 eftir.

2. leikhluti | 25-35: Grindvíkingar komast ekki inn í teig gestanna en Ólafur Ólafss. splæsir þá bara í langan þrist. 4:21 eftir.

2. leikhluti | 20-33: Gestunum gengur vel í sókninni og eru að spila fanta vörn. 13 stiga munur. 5:58 eftir.

2. leikhluti | 20-31: Martin Hermannsson hefur komið vel inn í leikinn og stýrir sóknarleik gestanna eins og herforingi. 6:45 eftir.

2. leikhluti | 20-29: Sverri Sverris þjálfara Grindvíkinga finnst KR-ingar skora of auðveldlega og biður um leikhlé. Það er alveg satt að gestirnir séu að fá auðveldar körfur. 7:43 eftir.

2. leikhluti | 18-21: Grindvíkingar minnka muninn í upphafi leikhlutans þar var Þorleifur Ólafsson að verki. 9 mín. eftir.

2. leikhluti | 16-21: Annar hluti er hafinn, Grindvíkingar hefja hann.

1. leikhluti | 16-21: Fyrsta leikhluta er lokið og gefur hann góð fyrirheit um leikinn. Fínn körfubolti hjá báðum liðum framan af en KR-ingar hafa náð upp góðum varnarleik í lok leikhlutans.

1. leikhluti | 16-21: Kr-ingar eru að stoppa Grindvíkingana í vörninni og nýta sóknir sínar. Það skilar sér í 5 stiga forskoti. 15 sek eftir.

1. leikhluti | 14-15: Ólafur þarf svo að fara velli, hann kennir sér meins í úlnlið, og Brynjar kemur gestunum yfir. 2:13 eftir.

1. leikhluti | 14-10:  Það er háloftabolti í gangi í Grindavík. Tvær troðslur frá heimamönnum og núna rétt í þessu var Ólafur Ólafsson að neita Pavel Ermolinski aðgengi hann var nánast búinn að troða boltanum. 3:15 eftir.

1. leikhluti | 12-10: Liðunum gengur betur í sókninni núna. 4 mín. eftir.

1. leikhluti | 10-6:  Shawn Atupem að fá á sig dæmda óíþróttamannslega villu. Grindavík nýttu vítaskotin og fá boltann aftur. 5:35 eftir.

1. leikhluti | 4-2: Timmons var með fallegt gegnumbrot sem endaði með troðslu. Liðunum hefur síðan gengið illa að skora. 7:25 eftir.

1. leikhluti | 2-2: Shawn Atupem kemur KR-ingum í 0-2 með tveimur vítaskotum en Jón Axel er fljótur að jafna fyrir heimamenn. 9:30 eftir.

1. leikhluti | 0-0: Boltanum hefur verið kastað upp og Íslandsmótið í körfubolta er hafið.

Fyrir leik: Það verður eins og í gær, einnar mínútu þögn fyrir leik til að heiðra minningu Ólafs E. Rafnssonar sem varð bráðkvaddur í sumar. Það er verið að kynna liðin til leiks, síðan verður minningin heiðruð og þá ætti þessi leikur að byrja. Það er mikil tilhlökkun í loftinu.

Fyrir leik: Að baki spádómum um velgengni KR-inga í deildinni í vetur liggur endurkoma Pavel Ermolinski í liðið. Þar er á ferðinni ansi kjötmikill biti, ekki einungis fyrir Vesturbæinga heldur fyrir íslenskan körfubolta í heild. Einnig náðu þeir í Darra Hilmarsson frá Þór í Þorlákshöfn og á hann eftir að efla liðið. KR-ingar frymsýna nýjan Bandaríkjamann í kvöld Shawn Atupem að nafni og er hann 200 cm á hæð og 107 kg samkvæmt skráningu. Það mun því fara mikið fyrir honum í teignum.

Fyrir leik: Eins og segir í inngangi fréttarinnar þá er KR-ingum spáð Íslandsmeistaratitlinum í vetur og Grindavík því fimmta. Margir myndu vilja meina að Grindvíkingum sé spáð frekar neðarlega í töflunni en rökstuðningur að baki því að erlendu leikmenn Grindavíkur frá því í fyrra eru farnir á brott. Þeir héldu hinsvegar íslenska kjarnanum í liðinu og eru því til alls líklegir. Bandarískur leikmaður þeirra er að spila leik númer tvö í gulum búning og það á eftir að koma í ljós hver áhrif hans verða innan liðsins.

Fyrir leik: Ég var að fá þær fréttir að 10 mínútna seinkun verður á leiknum sökum þess að einhverjir tækniörðugleikar eru í kringum beina útsendingu Stöðvar 2 frá leiknum. Leikmenn fá þá auka tíma í upphitun og ættu að vera orðnir sjóðandi heitir þegar boltanum verður kastað upp.

Fyrir leik: Miðað við umræðuna á samfélagsmiðlunum í dag er mikil spenna í körfuknattleiksáhugafólki fyrir deildinni í vetur. Áhorfendur eru byrjaðir að streyma inn í salinn í Röstinni og kæmi það mér virkilega á óvart ef það yrði fersentimetri sem yrði auður í stúkunni í kvöld.

Fyrir leik: Komið sælir lesendur, Boltavaktin heilsar úr Röstinni í Grindavík þar sem stórleikur Grindavíkur og KR fer fram. Er leikurinn hluti af fyrstu umferð Dominos-deildar karla í körfuknattleik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×