„Við bjuggumst alveg við þessari spá,“ segir Hanna Guðrún Stefánsdóttir, fyrirliði Stjörnunnar, í samtali við Vísi í dag. Stjörnunni er spáð efsta sætinu í Olís-deild kvenna í handknattleik tímabilið 2013-14.
Liðið hafnaði í öðru sæti deildarinnar á síðasta tímabili en Stjarnan tapaði fyrir Fram í einvíginu um Íslandsmeistaratitilinn en grípa þurfti til oddaleiks í einvíginu.
„Þetta hefur legið nokkuð mikið í loftinu en við erum með rosalega gott lið og því ekki skrítið að okkur sé spáð góðu gengi.“
„Liðið er gott á pappír en við ætlum okkur samt sem áður að taka einn leik fyrir í einu og sjá síðan til hverju það skilar okkur.“
Hægt er að sjá viðtalið hér að ofan.

