Hlauparinn Kolbeinn Höður Gunnarsson varð naumlega af sæti í undanúrslitum í 400 m hlaupi karla á Evrópumeistaramóti nítján ára og yngri á Ítalíu í morgun.
Kolbeinn hljóp á 48,06 sekúndum og átti næstbesta tímann af þeim sem komust ekki í undanúrslitin. Hann hafnaði í átjánda sæti af 28 keppendum.
Arna Stefanía Guðmundsdóttir hélt áfram keppni í sjöþraut kvenna en stökk yfir 1,71 m í hástökki sem er persónulegt met í þraut. Hún bætti einnig sinn besta árangur í 100 m grindahlaupi í morgun er hún hljóp á 14,14 sekúndum.
Arna Stefanía er í sjötta sæti sjöþrautarkeppninnar að loknum tveimur greinum með 1826 stig.

