Fótbolti

Alfreð: Einn mikilvægasti leikur sem Ísland hefur spilað

Stefán Árni Pálsson skrifar

„Er ekki alltaf næsti landsleikur sá allra mikilvægasti,“ sagði Alfreð Finnbogason, leikmaður íslenska landsliðsins í knattspyrnu, í viðtali við Valtý Björn Valtýsson, íþróttafréttamann Stöðvar 2, í vikunni.

Ísland mætir Slóveníu í undankeppni heimsmeistaramótsins í knattspyrnu á Laugardalsvelli á föstudagskvöld og hefur liðið sjaldan verið í eins góðri stöðu.

Ísland er með níu stig í öðru sæti riðilsins og getur náð því efsta tímabundið með sigri á föstudagskvöld.

„Við erum í frábærri stöðu til að koma okkur í toppsætið tímabundið og ég held að við höfum aldrei verið í svona góðum möguleika á að komast áfram áður, svo það er ekki spurning að þetta er einn mikilvægasti landsleikur sem Ísland hefur spilað.“

Gylfi Þór Sigurðsson og Jóhann Berg Guðmundsson verða fjarri góðu gamni í leiknum á föstudaginn en Alfreð hefur ekki áhyggjur af því.

„Það kemur alltaf maður í manns stað og ég hef engar áhyggjur af þessu, eflaust vantar einhverja leikmenn í þeirra lið.“

Hægt er að sjá myndband af viðtalinu við Alfreð hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×