Körfubolti

Phil Jackson hjálpar til í þjálfaraleitinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Phil Jackson.
Phil Jackson. Mynd/NordicPhotos/Getty
Phil Jackson, sigursælasti þjálfari NBA-deildarinnar frá upphafi, er ekki á leiðinni inn í NBA á ný en ætlar hinsvegar að hjálpa liði Detroit Pistons að finna sér nýjan þjálfara.

Detroit Pistons rak Lawrence Frank eftir tímabilið en liðið vann aðeins 29 af 82 leikjum sínum á síðasta tímabili.

„Phil Jackson er vinur minn og einn af klárustu körlunum í körfuboltaheiminum. Við erum mjög ánægðir með að fá góð ráð frá honum þegar við þurfum að taka stórar framtíðarákvarðanir fyrir félagið," sagði Tom Gores, eigandi Detroit Pistons.

Phil Jackson þjálfaði síðast lið Los Angeles Lakers árið 2011 en hann hefur unnið 11 meistaratitla sem þjálfari, sex með Chicago Bulls og fimm með Lakers.

„Ég og Tom ræddum það að kalla til ráðgjafa í leit okkar að nýjum þjálfara og við vorum sammála um að það væri gott að leita til Phil Jackson. Ég hlakka til að ræða við Phil Jackson í næstu viku," sagði Joe Dumars forseti Detroit Pistons.

Phil Jackson tapaði aðeins tvisvar sinnum með lið sitt í lokaðúrslitum NBA, 2008 á móti Boston Celtics og 2004 á móti einmitt Detroit Pistons.

Mynd/Nordic Photos/Getty
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×