Körfubolti

NBA í nótt: Vandræðalaust hjá toppliðunum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
LeBron James og félagar í leiknum í nótt.
LeBron James og félagar í leiknum í nótt. Mynd/AP
Úrslitin í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í nótt voru öll eftir bókinni en þá fóru fjórir leikir fram.

Miami, Oklahoma City, San Antonio og Indiana eru öll komin í 1-0 forystu í sínum rimmum eftir sigri á heimavelli í nótt. Öll liðin unnu minnst tíu stiga sigur.

San Antonio vann LA Lakers, 91-79, þar sem Manu Ginobili og Tony Parker skoruðu átján stig hvor. Tony Duncan var með sautján stig og tíu fráköst.

LA Lakers var vitanlega án Kobe Bryant sem sleit nýverið hásin en í fjarveru hans var Dwight Howard stigahæstur með 20 stig auk þess sem hanan tók fimmtán fráköst. Steve Nash og Pau Gasol voru með sextán stig hvor.

LeBron James skoraði 27 stig fyrir Miami sem vann Milwaukee, 110-87. Hann nýtti alls níu af ellefu skotum sínum í leiknum.

Miami lenti aldrei undir í leiknum en Ray Allen kom inn af bekknum og skoraði 20 stig.

Indiana vann Atlanta, 107-90, þar sem Paul George skoraði 23 stig og náði sinni fyrstu þreföldu tvennu í úrslitakeppninni. Hann var með ellefu fráköst og tólf stoðsendingar.

Oklahoma City vann Houston, 120-91. Kevin Durant skoraði 24 stig fyrir Oklahoma City og James Harden skoraði 20 stig fyrir Houston gegn sínu gömlu félögum.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×