Körfubolti

Sá frægasti til Íslands

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Joey Crawford og Kobe Bryant.
Joey Crawford og Kobe Bryant. Nordicphotos/AFP
Menn þurfa ekki að hafa fylgst grannt með NBA-körfuboltanum til þess að þekkja til Joey Crawford. Dómarinn litríki hefur dæmt í deild þeirra bestu í 35 ár og nálgast óðfluga 3000. leikinn sinn í deildinni.

Körfuknattleiksdómarafélag Íslands (KKDÍ) fagnar 50 ára afmæli sínu á árinu. Af því tilefni hefur félagið boðið Crawford til landsins og hefur sá bandaríski þekkst boðið.

„Það að fá Crawford á haustfund okkar körfuknattleiksdómara hefur gríðarmikla þýðingu þrátt fyrir þá staðreynd að NBA sé með annað regluverk en FIBA," segir Jón Bender formaður KKDÍ.  

Íslenskir körfuboltadómarar funda á hverju hausti og leggja línurnar fyrir komandi vetur. Fundurinn fer fram helgina 12.-14. september en auk Crawford munu Zsolt Hartyani hjá Evrópska körfuknattleikssambandinu og Kristinn Óskarsson alþjóðakörfuboltadómari flytja erindi.

Crawford hugar að meiðslum LeBron James.Nordicphotos/Getty
„Af starfandi dómurum í NBA deildinn er Crawford leikjahæstur þeirra allra í úrslitakeppninni. Crawford hefur því miklu að miðla til ekki bara íslenskra körfuknattleiksdómara heldur einnig dómara, þjálfara og áhugamanna í öðrum greinum," segir Jón. Hann setur komu Crawford í gott samhengi fyrir lesendur Vísis.

„Heimsókn hans er álíka hvalreki og fyrir knattspyrnudómara að fá Pierluigi Collina í heimsókn eða körfuknattleiksþjálfara að fá Phil Jackson í heimsókn," segir Jón. Hann er viss um að heimsókn Crawford muni ekki aðeins skila miklu til starfandi körfuknattleiksdómara heldur muni hún einnig vekja áhuga á íþróttinni og dómgæslu almennt.

Tim Duncan og Joey Crawford fara yfir málin.Nordicphotos/Getty
Zsolt Hartyani, fyrrverandi FIBA dómari og starfandi eftirlitsdómari sem sæti á í tækninefnd Evrópska körfuknattleikssambandsins, mun einnig koma til landsins við sama tilefni.

„Zsolt mun koma hingað til lands beint frá Evrópukeppninni í Slóveníu þar sem hann verður við störf sem eftirlitsdómari," segir Jón sem þakkar KKÍ og FIBA Europe fyrir stuðninginn sem geri dómarafélaginu kleift að halda veglega upp á afmælið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×