„Ég er mjög undrandi eftir fundinn, og er eiginlega bara leið." segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, um fund allsherjar- og menntamálanefndar sem fundaði í síðasta sinn á kjörtímabilinu um FBI-málið svokallaða á nefndasviði Alþingis í morgun.
Það fjallaði um rannsóknir fulltrúa bandarísku alríkislögreglunnar hér á landi vegna yfirvofandi tölvuárásar á tölvukerfi stjórnarráðs Íslands sumarið 2011. Árás sem ríkislögreglustjóri lítur svo á að hafi verið komið í veg fyrir sama sumar.
Sá sem hóf málið var Sigurður Ingi Þórðarson, en hann hafði fyrst samband við sendiráð Bandaríkjanna í júní árið 2011 og sagðist hafa upplýsingar um að tölvuhakkarar í hópnum Lulzec hygðust ráðast á tölvukerfi íslenskra stjórnvalda.
Fulltrúar alríkislögreglunnar komu hingað til lands vegna meintrar árásar og sóttu um svokallaða réttarbeiðni sem innanríkisráðuneytið samþykkti. Málið varð þó öllu flóknara þegar fulltrúarnir komu aftur hingað til lands í ágúst sama sumar, til þess að taka skýrslur af Sigurði vegna tengsla hans við WikiLeaks en hann var sjálfboðaliði uppljóstrunarsíðunnar til skamms tíma.
Innanríkisráðuneytið segist hafa litið svo á að viðtöl FBI manna hér á landi við Sigurð hafi verið fyrir utan réttarbeiðnina sem þeir fengu í júní. Athygli vakti þegar málið kom upp að ríkislögreglustjóri og ríkissaksóknari gáfu út yfirlýsingu þar sem sá skilningur kom fram að um sömu rannsókn væri að ræða og því þyrftu fulltrúarnir ekki nýja réttarbeiðni.Sama sjónarmið kom einnig fram á fundum nefndarinnar fyrr á árinu þar sem rætt var við alla aðila málsins, meðal annars ríkislögreglustjóra og saksóknara.
Þorgerður Katrín segir lögregluna standa í þeirri trú að engin ástæða hafi verið til þess að reka FBI mennina úr landi, „og fundurinn í dag undirstrikaði þversagnir í öllum málflutningi ráðherrans," segir Þorgerður Katrín en Jón Bjartmarz, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, og fulltrúi ríkislögreglustjóra, gáfu skýrslu fyrir nefndina í morgun.
Þorgerður Katrín er sannfærð um að Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra sé í mótsögn við sig sjálfan í sínu málflutningi, og Þorgerður áréttar sjónarmið sem hún hefur áður sett fram: „Þetta undirstrikar það enn og einu sinni að hið pólitíska vald var með grófa íhlutun í sjálfstæði ákæruvaldsins í þessu máli."
Og Þorgerður bætir við: „Það má ekki sópa þessu máli undir teppið."
Formaður nefndarinnar, Björgvin G. Sigurðsson, hefur áður sagt að hann líti svo á að innanríkisráðuneytið hafi brugðist hárrétt við í málinu. Ekki verður fjallað meira um málið á kjörtímabilinu á vettvangi nefndarinnar.