Fótbolti

Fylkir skellti FH í Lengjubikarnum

Stefán Árni Pálsson skrifar
Tryggvi Guðmundsson skoraði fyrir Fylki í kvöld.
Tryggvi Guðmundsson skoraði fyrir Fylki í kvöld. Mynd. / Stefán
Tveir leikir fóru fram í Lengjubikar karla í knattspyrnu í dag en bæði var leikið í Kórnum og Boganum á Akureyri.

Fylkir vann Íslandsmeistara FH, 3-1, í Kórnum en það var Finnur Ólafsson sem kom Fylki á bragðið með fyrsta marki leiksins eftir tæplega korters leik. Atli Guðnason jafnaði metin nokkrum mínútum síðar fyrir FH.

Selfyssingurinn Viðar Örn Kjartansson kom Fylki aftur yfir eftir hálftíma leik og það var síðan Tryggvi Guðmundsson sem tryggði þeim appelsínugulu sigurinn með marki beint úr aukaspyrnu í seinni hálfleiknum. Bæði lið eru því með sex stig í 1. riðli Lengjubikarsins eftir leikinn.

Þórsarar tóku á móti Stjörnunni í Boganum á Akureyri en Stjarnan vann leikinn, 5-3, í átta marka leik. Leikurinn var í raun magnaður en Stjarnan leiddi leikinn 3-1 þegar tíu mínútur voru eftir af leiknum.

Þá skoruðu Þórsarar tvö mörk á einu augabragði og náðu að jafna metin. Halldór Orri Björnsson skoraði síðan í autt markið eftir að markvörður Þórs hafði meiðst í samstuði við leikmann Stjörnunnar.

Þórsarar voru virkilega ósáttur við dómara leiksins Valgeir Valgeirsson í aðdraganda marksins.

Halldór Orri skoraði síðan fimmta mark Stjörnunnar í uppbótatíma og tryggði gestunum sigur í leiknum. Stjarnan er með níu stig eftir sigurinn en Þórsarar með þrjú.

Upplýsingar um markaskorara fengnar frá fotbolt.net




Fleiri fréttir

Sjá meira


×