Sport

Nadal tekur sér Ronaldo til fyrirmyndar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nadal og Nalbandian eftir úrslitaleikinn í Brasilíu.
Nadal og Nalbandian eftir úrslitaleikinn í Brasilíu. Nordic Photos / AFP
Rafael Nadal er kominn aftur af stað eftir sjö mánaða fjarveru vegna hnémeiðsla. Hann vann nýverið sitt fyrsta mót eftir meiðslin.

Nadal fagnaði sigri á Opna brasilíska mótinu eftir sigur á David Nalbandian í úrslitaleiknum. Brasilíumaðurinn og fyrrum knattspyrnuhetjan Ronaldo var á meðal áhorfenda.

„Ronaldo sýndi hvað hann gat gert á sínum ferli þrátt fyrir öll sín hnémeiðsli á ferlinum," sagði Nadal sem hefur sjálfur verið í miklu basli með hnéð. „Hann hefur verið mér mikil fyrirmynd og dæmi um hvað ákveðni og dugnaður fleytir manni langt."

Ronaldo fór í þrjár stórar hnéaðgerðir á sínum tíma en hann varð tvívegis heimsmeistari með brasilíska landsliðinu og lék með stórliðum eins og Barcelona, Real Madrid, Inter og AC Milan.

„Hann var óstöðvandi. Einn besti leikmaður allra tíma þrátt fyrir að hafa verið svona óheppinn með meiðsli."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×