Samherji og dótturfélög högnuðust um 8,8 milljarða króna á árinu 2011. Hagnaður fyrir afskriftir og skatta (EBITDA) var 18,1 milljarður króna og velta samstæðunnar var 79,5 milljarðar króna. Þetta er besta afkoma Samherja frá upphafi samkvæmt uppgjörstilkynningu á heimasíðu Samherja sem birt var í gær.
Samtals hagnaðist Samherja-samstæðan um 20,2 milljarða króna á árunum 2009 til 2011, en hún starfar í alls tíu mismunandi löndum. Alls eru rúmlega 60 prósent af starfsemi Samherja erlendis. Hagnaður samstæðunnar fyrir afborganir lána og skatta (EBITDA) var 18,1 milljarður króna og jókst um 586 milljónir króna á milli ára. Samherji greiddi um 400 milljónir króna í veiðigjald til ríkissjóðs í fyrra, eða 2,2 prósent af EBITDA-hagnaði sínum. Í tilkynningunni segir að áætlanir geri ráð fyrir að veiðigjaldið verði 1,4 milljarðar króna í ár.
Virði eigna Samherja hefur aukist mikið á undanförnum árum. Í árslok 2009 var virði þeirra um 64,5 milljarðar króna. Um síðustu áramót var það orðið 108,6 milljarðar króna. Aukning er um 40 prósent á tveimur árum. Eignir Samherja jukust um 26 milljarða króna á síðasta ári. Þar munar mestu um kaup á Útgerðarfélagi Akureyrar (ÚA) sem Samherji greiddi 14,3 milljarða króna fyrir.
Skuldir Samherjasamstæðunnar voru 71 milljarður króna í lok síðasta árs. Þar af voru skuldir við íslenskar lánastofnanir samtals 46,5 milljarðar króna. Í tilkynningunni kemur fram að það sem af er árinu 2012 hafi þær verið greiddar niður um sex milljarða króna.
Þar segir einnig að Samherji hafi hvorki fengið niðurfellingu né endurútreikning af nokkru láni og haft er eftir Þorsteini Má Baldvinssyni, forstjóra og eins aðaleiganda Samherja, að samstæðan hafi heldur ekki farið fram á að lánaskilmálar nokkurs láns sem Samherji er með verði dæmdir ólöglegir.
Gjaldeyriseftirlit Seðlabanka Íslands framkvæmdi húsleitir hjá Samherja í mars á þessu ári vegna gruns um að félagið hefði gerst brotlegt við lög um gjaldeyrismál. Forsvarsmenn hafa ætíð neitað sök. Hæstiréttur vísaði fyrr í þessari viku frá kröfu Samherja um að rannsóknin hafi verið ólögmæt.
