Dómur verður kveðinn upp í Vafningsmálinu svokallaða á morgun, 28. desember. Ákærðir í málinu eru Guðmundur Hjaltason, fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Glitnis, og Lárus Welding, fyrrverandi forstjóri Glitnis. Þeir eru sakaðir um umboðssvik, í tengslum við 10 milljarða peningamarkaðslán til Milestone hinn 8. febrúar 2008.
Hólmsteinn Gauti Sigurðsson, saksóknari hjá embætti sérstaks saksóknara, fór fram á fimm ára fangelsi yfir Guðmundi og fimm og hálfs árs fangelsi yfir Lárusi, þegar hann flutti mál sitt fyrir dómi fyrr í mánuðinum. Guðmundur og Lárus neita alfarið sök, og segjast ekki hafa komið að lánveitingu til Milestone, sem ákært er vegna.