Fótbolti

Reese Witherspoon kemur stelpunum okkar í gírinn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Dóra María Lárusdóttir með boltann gegn Ungverjum um síðustu helgi.
Dóra María Lárusdóttir með boltann gegn Ungverjum um síðustu helgi. Mynd / Daníel
Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu æfði í dag á keppnisvellinum í Lovech en liðið mætir Búlgaríu í undankeppni Evrópumótsins klukkan 15 að íslenskum tíma á morgun.

Sigurður Ragnar Eyjólfsson, landsliðsþjálfari Íslands, segir mikinn hita vera í Búlgaríu.

„Það hefur verið hátt í 30 stiga hiti á daginn. Það mun kannski hafa einhver áhrif á leikinn. Það var orðið aðeins svalara klukkan sex í kvöld þegar við æfðum keppnisvellinum sem lítur mjög vel út. Völlurinn er flottur, bæði stór og breiður, og býður upp á að spila góðan fótbolta," segir Sigurður Ragnar.

Sigurður Ragnar segir að óskað verði eftir því að völlurinn verði vökvaður.

„Við vitum ekki hvort hann verði vökvaður eða hvort bæði lið þurfi að samþykkja það. Völlurinn er mjög góður eins og hann en það myndi samt henta okkur að hann yrði vökvaður," segir Sigurður Ragnar sem segir allar stelpurnar klárar í slaginn á morgun.

„Fríða (Hólmfríður Magnúsdóttir) kveinkaði sér aðeins undir lok æfingar í dag. Það eru einhver gömul meiðsli framan á sköflungnum. Ég held að hún verði samt í lagi," segir Sigurður Ragnar.

Framundan í kvöld er liðsfundur auk þess sem Sólveig Þórarinsdóttir sjúkraþjálfari liðsins hefur sett saman rosalega tónlistargetraun að sögn Sigurður Ragnars. Loks mun hópurinn horfa saman á bíómynd.

„Bíómyndin er This Means War með Reese Witherspoon sem fjallar um tvo leynilögreglugæja sem eru báðir skotnir í henni," segir landsliðsþjálfarinn kíminn. Vonandi kemur myndin landsliðskonunum í gírinn fyrir leikinn á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×