Réttarhöldin yfir Breivik halda áfram í dag og verða þeir sem urðu vitni að sprengingunni í stjórnarráðshverfinu í Osló kallaðir í vitnastúku. Öryggisvörðurinn Tor Inge Kristoffersen, sem bar vitni í morgun fyrstur allra, lýsti því þegar hann sá Breivik á eftirlitsmyndum leggja hvítri sendibifreið.
Tor var í þann mund að fá nærmynd af númeraplötu bílsins þegar sprengingin varð en hann vildi ganga úr skugga um hvort Breivik hefði leyfi til að leggja á svæðinu. Margar eftirlitsmyndavélar hættu að virka, Tor heyrði mikinn gný og fann hvernig byggingin skalf og nötraði. Þegar út var komið fannst Tor, sem er fyrrum hermaður, hann vera staddur á stríðssvæði.
Öryggisvörðurinn talaði um samstarfsmann sinn sem var á meðal þeirra átta sem létust í sprengingunni og nefndi aðra sem eru öryrkjar í dag vegna andlegs ástands.

Þá hefur lögreglumaðurinn Tor Langli einnig borið vitni en hann lýsti þeirri ringulreið sem ríkti í Osló eftir voðaverkin. Hann hafi í fyrstu fengið þær upplýsingar að tveir menn hefðu verið að verki og að viðbúið væri að tvær sprengjur til viðbótar ættu eftir að springa.
Breivik sjálfur er viðstaddur réttarhöldin í dag en hann er sagður hlusta á vitnaleiðslurnar án þess að sýna vott af tilfinningum.
Tæknimenn lögreglunnar í Osló hafa nú sett sprenginguna á svið og mynduðu með háhraða myndavélum. Hægt er að sjá myndbandið hér fyrir neðan.