Sindri Þór Jakobsson setti norskt met í 100 metra flugsundi á norska meistaramótinu sem stendur yfir um helgina. Sindri, sem ættaður er af Akranesi en gerðist norskur ríkisborgari fyrir hálfu öðru ári, synti á tímanum 53,29 sekúndum.
Sindri Þór fylgdi því vel á eftir góðum árangri á móti í Amsterdam um síðustu helgi. Þá setti hann norskt met í 200 metra flugsundi þegar hann synti á tímanum 2.01,20 mínútum. Um árangur Sindra Þórs er fjallað á heimasíðu norska sundsambandsins, sjá hér.
Íslandsmet Sindra Þórs í 200 metra flugsundi í 25 metra og 50 metra laug frá árinu 2009 standa enn.
Sindri Þór syndir fyrir sundfélagið Bergensvömmerne í Bergen í Noregi en það gerir einnig Norðlendingurinn Bryndís Rún Hansen sem setti Íslandsmet í 50 metra flugsundi um síðustu helgi á móti í Amsterdam. Bryndís, sem einnig er meðal keppenda á norska meistaramótinu, synti á 27,41 sekúndu og bætti sitt gamla met um 24/100 úr sekúndu að því er fram kemur á heimasíðu Sundsambands Íslands.
