Talsmaður lögreglunnar í Noregi sagði í dag að viðbrögð lögregluyfirvalda hefðu verið silaleg þegar upp komst um skotárás Anders Behring Breivik í Útey.
Alls féllu 77 í voðaverkum Breiviks í miðborg Osló og í Útey.
Oystein Maeland, lögreglustjóri, baðst afsökunar á löngum viðbragðstíma lögreglunnar.
„Það er mikil byrði að vita til þess að við hefðum getað komið í veg fyrir svo mikið mannfall," sagði Maeland.
Rannsókn stendur nú yfir á viðbrögðum lögreglunnar. Á meðal þess sem komið hefur í ljós er að lögreglan hafði þyrlu til umráða þegar voðaverkin áttu sér stað.
