Indianapolis Colts mun tilkynna í dag að leikstjórnandinn Peyton Manning sé á förum frá félaginu. Colts hefur ákveðið að segja upp samningi sínum við Manning í stað þess að greiða honum 28 milljón dollara bónus þann 8. mars.
Colts á fyrsta valrétt í nýliðavalinu og er talið ætla að velja leikstjórnandann Andrew Luck og byggja upp nýtt lið með hann sem lykilmann.
Manning hefur þurft að fara í þrjár aðgerðir á hálsi og er enn óvíst hvort hann geti spilað á nýjan leik. Hann er þó að reyna að koma sér í form og mun láta á það reyna. Takist honum það verður enginn skortur á liðum sem vilja fá hann í vinnu.
Manning, sem er að verða 36 ára, lék í 14 tímabil með Colts og hefur fjórum sinnum verið valinn besti leikmaður deildarinnar. Hann hefur þess utan sett fjölda meta sem seint verða slegin.
