Innlent

Landsdómur kemur saman í næstu viku

Jónas Margeir Ingólfsson skrifar
Landsdómur verður að öllum líkindum kallaður saman í næstu viku, í fyrsta sinn í sögu lýðveldisins. Fyrsta mál dómsins verður að úrskurða um hæfi dómenda.

Geir H. Haarde fékk ekki að krefjast þess fyrir héraðsdómi að málshöfðun Alþingis verði felld niður. Héraðsdómari úrskurðaði um þetta á miðvikudag. Andri Árnason, lögmaður Geirs, hefur nú kært úrskurðinn til landsdóms og þarf dómurinn því að koma saman við fyrsta tækifæri en landsdómur hefur aðstöðu í þessum sal hér í Þjóðmenningarhúsinu.

Saksóknara Alþingis og forseta landsdóms hefur verið tilkynnt um kæruna en hún barst hérðasdómara laust fyrir klukkan tvö í dag. Samkvæmt heimildum fréttastofu verður kæran þó ekki send landsdómi og saksóknara formlega fyrr en á mánudag. Þá mun saksóknari hafa sólarhring til að koma að sínum athugasemdum en landsdómur mun þurfa að koma saman til að fjalla um málið. Fyrsta verkefni landsdóms verður þá að úrskurða um hæfi dómenda en eins og fram hefur komið er óvíst hverjir þurfa að víkja úr dómnum. Þegar því er lokið mun landsdómur taka fyrir kæru Geirs og ákveða lögmæti úrskurðar héraðsdóms. Heimildir fréttastofu herma ennfremur að reynt verði að taka sjálfa kæruna fyrir í þessum mánuði.

Landsdómur mun þannig ekki koma saman til að fjalla um ákæru Alþingis heldur til að skera úr um hvort Geir megi krefjast frávísunar fyrir hérðasdómi. Samkvæmt heimildum fréttastofu er hins vegar stefnt að því að saksóknari leggi ákæru Alþingis fyrir landsdóm í marsmánuði. Atriði á borð við þessa kæru gætu þó seinkað því um einhvern tíma.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×