Danska tenniskonan Caroline Wozniacki verður að bíða enn um sinn eftir sínum fyrsta stórmótstitli en hún tapaði í morgun fyrir Li Na frá Kína í undanúrslitum í einliðaleik kvenna á opna ástralska meistaramótinu í tennis.
Wozniacki er í efsta sæti heimslistans og heldur því sæti þrátt fyrir tapið í morgun. Li Na er hins vegar fyrsta kínverska konan sem kemst í úrslit á stórmóti í tennis.
Wozniacki er tvítug og var að spila í fyrsta sinn á stórmóti sem efsta kona heimslistans. Hún byrjaði mun betur í viðureigninni og vann fyrsta settið, 6-3.
Hún var svo stigi frá því að vinna sigur í stöðunni 5-4 en Li Na náði að jafna og knýja fram sigur í settinu, 7-5. Na kláraði svo oddasettið, 6-3.
Wozniacki komst í úrslit á opna bandaríska í fyrra en tapaði þá fyrir Kim Clijsters frá Belgíu í úrslitaleiknum.
Clijsters komst í morgun í úrslitin eftir þægilegan sigur á Veru Zvonarevu frá Rússlandi, 6-3 og 6-3. Zvonareva er í öðru sæti heimslistans en Clijsters í því þriðja.
Li Na var í ellefta sæti síðast þegar heimslistinn var gefinn út en mun væntanlega komst í hóp tíu efstu eftir góða frammistöðu í Melbourne.
Úrslitaviðureign Clijsters og Na mun fara fram á laugardaginn.