Skoðun

Ábyrgð SA

Valgerður Bjarnadóttir skrifar
Baráttan um völdin er hörð þessa dagana. Svo undarlegt sem það nú er þá eru framkvæmdastjóri og stjórn Samtaka atvinnulífsins þar í aðalhlutverki. Svo undarlegt vegna þess að það er óhyggilegt að blanda samtökunum inn í þessa miklu baráttu um verðmæti og völd. Enda hvarflar það oft að mér að talsmaðurinn/framkvæmdastjórinn sé frekar í hefðbundinni pólitík en í forsvari fyrir mikilvæg og nauðsynleg samtök atvinnurekenda.

Öll erum við sammála um að traustir atvinnuvegir eru undirstaða efnahagslífsins. Öll erum við sammála um að atvinnuleysið er alvarlegasta vandamálið sem þjóðfélagið glímir nú við.

Svo undarlega háttar að forysta atvinnulífsins telur mest áríðandi að gera óbilgjarna og ósanngjarna kröfu um að fiskurinn í sjónum verði nú endanlega afhentur kvótahöfum - nú skal það stimplað og innsiglað. Ef ekki þá fá engir launamenn neinar launahækkanir, svo einfalt skal það vera.

Forsvarsmenn atvinnulífsins eru tilbúnir að auka enn á efnahagsvandann og atvinnuleysið með því að keyra allar kjaraviðræður í strand.

Það undarlega er að mönnunum virðist ekki finnast neitt athugavert við framgöngu sína. Ég hallast að því að það sé vegna þess að forsvarsmennirnir eru í hefðbundinni pólitík og þeim er nokk sama um allt annað en að flokkurinn þeirra komist aftur til valda. Átján ára valdaseta þeirra sigldi þjóðfélaginu í strand og þeir skirrast ekki við að reyna að stranda skútunni aftur.

Fyrirkomulag fiskveiðistjórnunarkerfisins er að bankahruninu frátöldu mesta efnahagslegt óréttlæti sem yfir venjulegt fólk þessa lands hefur gengið. Það þarf að leiðrétta, það þarf ekki að ná sátt við sægreifana. Sægreifarnir þurfa að ná sátt við okkur fólkið í landinu. - Þetta þurfa forsvarsmenn atvinnulífsins að skilja og þeir þurfa líka að átta sig á því að þeirra er ábyrgðin.

 




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×