Fótbolti

Messi: Við getum orðið heimsmeistarar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Lionel Messi.
Lionel Messi. Nordic Photos / Getty Images
Lionel Messi telur að hann geti orðið heimsmeistari með argentínska landsliðinu þrátt fyrir að liðið hafi ekki unnið stóran titil síðan 1993.

Messi hefur unnið allt sem hægt er að vinna með félagsliði sínu, Barcelona. „Ég á mér þann draum að verða heimsmeistari og vinna Copa America með landsliðinu. Og ég veit að mér mun takast það - ég er sannfærður um það," sagði Messi í viðtali sem birtist á heimasíðu argentínska knattspyrnusambandsins.

Messi hefur oftar en ekki verið gagnrýndur fyrir frammistöðu sína með landsliðinu en hann hefur ekki áhyggjur af því.

„Ég þarf ekki að sanna neitt fyrir neinum. Ég myndi gjarnan vilja titla með landsliðinu en ég er bara einn leikmaður í hópnum. Við viljum allir standa okkur vel fyrir Argentínu."

Liðið er komið með nýjan þjálfara, Alejandro Sabella, en hefur ekki byrjað neitt sérstaklega vel í undankeppni HM 2014. „Þetta er tvennt ólíkt. Barcelona er besta lið heims og allir viðurkenna það - meira að segja þeir sem ekki styðja liðið. Það er afrakstrur margra ára vinnu með liðsfélögunum."

„Þetta hefur verið erfiðara með landsliðinu og höfum við gengið í gegnum miklar breytingar og marga þjálfara á undanförnum árum. En við erum á réttri leið og munum ná góðum árangri."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×