Neyðarlínunni var í morgun tilkynnt um torkennilega sterka ljósbjarma í hlíðum Mýrdalsjökuls, og veltu tilkynnendur því fyrir sér hvort gos væri að hefjast í Kötlu.
Þá greindi RÚV einnig frá því að fréttastofunni hefði borist fyrirspurn utan úr heimi þar sem spurt var hvort hraun væri byrjað að renna niður hlíðarnar og að Katla væri byrjuð að gjósa.
Við athugun kom í ljós á þarna var fjölmennt kvikmyndatökulið að taka upp ævintýraþættina Game of Thrones og höfðu verið snemma á fótum til að ná réttu birtuskilyrðunum. Lengi vel mátti fylgjast með ljósaganginum í vefmyndavél á Háfelli og um tíma var sjálf upptakan á þessum fræga ævintýraþætti, ævintýri líkust.

