Fótbolti

Óttinn við að gera mistök bugaði Rafati

Þýski dómarinn Babak Rafati, sem reyndi að svipta sig lífi á dögunum, segir að óttinn um að gera mistök hafi gert hann þunglyndan sem hafi síðan leitt til þess að hann reyndi að taka sitt eigið líf.

Rafati fannst alblóðugur í baðkari á hóteli nokkrum klukkutímum fyrir leik sem hann átti að dæma. Læknum tókst að bjarga lífi hans og hann er nú farinn í meðferð hjá geðlæknum.

"Rafati hefur verið greindur með þunglyndi. Þunglyndið gerði fyrst vart um sig fyrir um 18 mánuðum síðan og ástandið hefur síðan eingöngu versnað. Pressan sem fylgir starfi hans og óttinn við að gera mistök leiddu til þess afdrifaríka atviks í hans lífi," segir í yfirlýsingu sem gefin hefur verið út fyrir hönd Rafati.

"Rafati hefur ákveðið að greina frá veikindum sínum opinberlega og hann vonast til þess að byrja að dæma á nýjan leik þegar meðferðinni lýkur. Hann biður nú um frið frá fjölmiðlum á meðan hann tekur á sínum vandamálum."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×