Ótrúleg saga St. Louis Cardinals fékk góðan endi í nótt er liðið tryggði sér titilinn í bandarísku MLB-deildinni í hafnabolta. Liðið hafði betur, 6-2, gegn Texas Rangers í oddaleik liðanna í St. Louis í nótt.
Í ágúst síðastliðnum reiknaði enginn með því að Cardinals kæmist einu sinni í úrslitakeppnina. Liðið komst svo á ótrúlegan sprett í september og náði að tryggja sig inn í úrslitakeppnina á lokadegi deildakeppninnar.
Liðið vann svo hvern andstæðinginn á fætur öðrum í úrslitakeppninni og komst í sjálfa úrslitarimmuna, World Series, þar sem liðið mætti Rangers.
Rangers komst í 3-2 forystu í rimmunni og var aðeins einu kasti frá því að tryggja sér sigurinn í venjulegum leiktíma í sjötta leik liðanna í fyrrakvöld. Cardinals jafnaði en Rangers var svo aftur einu höggi frá því að tryggja sér sigurinn í tíundu lotu. Aftur jafnaði Cardinals og vann svo ótrúlegan 10-9 sigur í elleftu lotunni.
Leikurinn í nótt var ekki jafn spennandi en mestu munaði þegar að Cardinals breytti stöðunni úr 3-2 í 5-2 í fimmtu lotunni. Forystu Cardinals var aldrei ógnað eftir þetta og fögnuðu heimamenn glæsilegum árangri. David Freese, sem tryggði Cardinals áðurnefndan sigur í fyrrakvöld, var valinn besti leikmaður úrslitarimmunnar.
Þetta er í ellefta sinn sem Cardinals vinur titilinn en síðast gerðist það árið 2006. Rangers hefur aldrei unnið titilinn en þetta er annað árið í röð sem liðið tapar í World Series. Félagið var stofnað árið 1961 og keppt undir nafninu Texas Rangers síðan 1972.
Cardinals tryggði sér titilinn í nótt
Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar

Mest lesið


Fagnaðarlæti Púlara mældust á jarðskjálftamælum
Enski boltinn



Beckham fimmtugur í dag
Enski boltinn

Juventus-parið hætt saman
Fótbolti


„Þetta var hið fullkomna kvöld“
Fótbolti

