Skotinn Andy Murray steinlá 6-3 og 6-1 gegn Kevin Anderson í annarri umferð Rogers-bikarsins í Kanada í gær. Murray átti engin svör við sterkum uppgjöfum Suður-Afríkumannsins.
Murray, sem sat hjá í fyrstu umferð, komst aldrei í takt við leikinn. Hann tapaði fimm sinnum stigi á því að klúðra báðum uppgjöfum sínum. Útlitið ekkert sérstakt þegar styttist í Opna bandaríska meistaramótið.
„Ég hef æft mjög stíft undanfarið í undirbúningi fyrir mótið. Ég hef alltaf spilað vel hérna,“ sagði Murray sem hefur unnið sigur á mótinu undanfarin tvö ár.
„Ég komst aldrei í gang. Ég byrjaði bæði settin virkilega illa sem hjálpar ekki gegn manni sem gefur upp eins og Kevin,“ sagði Murray.
Rafael Nadal, Novak Djokovic og Roger Federer eru enn meðal þátttakenda á mótinu.
Andy Murray pakkað saman í Kanada
Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
