Alþjóða frjálsíþróttasambandið IAAF hefur tekið þá ákvörðun að allir þátttakendur á heimsmeistaramótinu í frjálsum íþróttum verði sendir í lyfjapróf. Mótið fer fram í Suður-Kóreu 27. ágúst - 4. september.
Tæplega 2000 íþróttamenn mæta til leiks í Suður-Kóreu og verða þeir allir sendir í blóðprufu. Blóðtakan fer fram við sömu skilyrði hjá öllum og innan sama tímaramma frá því íþróttamennirnir keppa. Mun þetta vera strangasta lyfjaeftirlit á stórmóti í íþróttum.
David Oliver, grindahlaupari og bronsverðlaunahafi á Ólympíuleikunum í Peking, skrifaði eftirfarandi á Twitter: „Flott. Það verður athyglisvert að sjá hversu margir íþróttamenn draga sig úr keppni.“
Katharine Merry, fyrrum bronsverðlaunahafi í 400 metra hlaupi, tjáði sig á sömu samskiptasíðu og lýsti yfir mikilli ánægju.
„Það verður áhugavert að sjá hvort íþróttamenn draga sig úr keppni vegna veikinda eða meiðsla í kjölfar þess að IAAF ætlar að senda alla í blóðprufu,“ sagði Merry.
Blóðprufurnar verða teknar í sérstöku húsnæði í íþróttaþorpinu. Sýnin verða skoðuð á staðnum og þvínæst send til sérstakrar rannsóknarstofu í Lausanne í Sviss.
„Frábærar fréttir varðandi blóðprufurnar. Ég bauðst til þess að fara í próf á Samveldisleikunum 1998: Fljótleg og þægileg fyrir íþróttamennina. Tími til kominn,“ sagði Iwan Thomas fyrrum 400 metra hlaupari.
Íslendingar eiga einn fulltrúa á mótinu. Spjótkastarinn Ásdís Hjálmsdóttir mætir til leiks en hún glímir um þessar mundir við meiðsli á fæti.
Allir íþróttamenn á HM í frjálsum fara í lyfjapróf
Kolbeinn Tumi Daðason skrifar

Mest lesið





Magnús Orri tekur við formannsstólnum af Páli
Íslenski boltinn



Sektin hans Messi er leyndarmál
Fótbolti

