Suður-Afríkumaðurinn Oscar Pistorius verður í landsliðshópi Suður-Afríku sem keppir á heimsmeistaramótinu í frjálsum íþróttum í Suður-Kóreu í lok mánaðarins. Pistorius hleypur á gervifótum frá stoðtækjaframleiðandanum Össuri.
Pistorius hljóp 400 metrana á 45.07 sekúndum á móti á Ítalíu í júlí og tíminn tryggði honum sæti í liði Suður-Afríku.
„Mig hefur dreymt um það í langan tíma að keppa á stórmóti og þetta er stór stund í lífi mínu. Það er heiður að vera fulltrúi þjóðar sinnar á jafnvirtum vettvangi," sagði hinn 24 ára gamli Suður-Afríkubúi.
Pistorius, sem bætti sinn besta tíma um hálfa sekúndu, keppir í 400 metra hlaupinu auk þess sem hann verður í boðsveit Suður-Afríku í 4x400 metra hlaupi.
Pistorius, sem er 24 ára, fékk góð tíðindi í vor þegar Alþjóða íþróttadómstóllinn afturkallaði ákvörðun Alþjóða Íþróttasambandsins (IAAF) sem meinaði honum að keppa á Ólympíuleikum.
