Erlent

Norðmenn skipa sérstaka rannsóknarnefnd

Norsk stjórnvöld hafa ákveðið að koma á fót sérstakri sjálfstæðri rannsóknarnefnd sem á að fara í saumana á því sem gerðist s.l. föstudag þegar a.m.k. 76 létu lífið í hryðjuverkaárás Anders Behring Breivik.

Jens Stoltenberg forsætisráðherra Noregs tilkynnti um nefndina í gær en hún mun rannsaka bæði sprenginguna í miðborg Oslóar og fjöldamorðin í Útey. Nefndin á að skila af sér skýrslu um málið til norska þingsins innan eins árs.

Stoltenberg segir að hann vonist til þess að starf nefndarinnar og niðurstöður hennar muni koma í veg fyrir svipaða atburði í framtíðinni.

Stoltenberg segir að Norðmenn hafi ekki upplifað árás af þessari stærðargráðu síðan í seinni heimsstyrjöldinni. Þetta hafi verið árás gegn þjóðinni og árás gegn lýðræði Noregs. Það væri mikilvægt að þeir sem urðu fyrir barðinu á henni fengju svör við öllum spurningum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×