Íþróttavöruframleiðandinn Nike hefur gert samning við leikstjórnanda Philadelphia Eagles, Michael Vick, fjórum árum eftir að fyrirtækið rak Vick vegna vandræða utan vallar.
Vick var hent í fangelsi í tæp tvö ár fyrir að standa að hundaati. Hann var þá á risasamningi hjá Nike.
Leikmanninum hefur gengið vel að endurbyggja ímynd sína eftir að hann kom úr steininum og Nike hefur nú ákveðið að fyrirgefa leikmanninum.
"Michael vill hafa jákvæð áhrif á unga fólkið. Hann viðurkennir sín mistök og hefur lært af þeim. Við styðjum þær jákvæðu breytingar sem hann hefur gert á lífi sínu," segir í yfirlýsingu frá Nike.
