Fótbolti

Magath rekinn frá Schalke

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Bongarts
Felix Magath, stjóri Schalke í Þýskalandi, hefur verið sagt upp störfum hjá félaginu þrátt fyrir að hann hafi komið liðinu í fjórðungsúrslit Meistaradeildar Evrópu.

Magath vann áður þýska meistaratitilinn með bæði Wolfsburg og Bayern München en Schalke hefur gengið illa í deildinni í vetur og situr nú í tíunda sæti.

Schalke vann þó 2-1 sigur á Frankfurt um helgina og er þar að auki komið í úrslit þýsku bikarkeppninni eftir sigur á Bayern í undanúrslitum.

„Hvað varðar hagsmuni félagsins þá eru ástæðurnar fyrir þessari ákvörðun mjög góðar," sagði Clemens Tönnies á heimasíðu félagsins. „Við ætlum ekki að greina opinberlega frá þessum aðstæðum þar sem fram undan er barátta fyrir dómstólum. En við erum mjög afslappaðir vegna þessa og við gerðum þetta með hagsmuni félagsins að leiðarljósi."

Talið er líklegt að Otto Rehhagel verði skipaður stjóri liðsins til loka leiktíðarinnar en hann var landsliðsþjálfari Grikklands í níu ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×