Roger Federer féll í dag úr leik á opna franska meistaramótinu í tennis er hann tapaði fyrir Robin Söderling frá Svíþjóð, 3-1.
Söderling hefur nú slegið í gegn á opna franska í tvö ár í röð en hann varð í fyrra fyrsti maðurinn frá upphafi til að vinna sigur á Rafael Nadal á þessu móti.
Federer hafði unnið allar tólf viðureignir sínar gegn Söderling þar til í dag. Hann vann fyrstu lotuna, 6-3, en tapaði þeim þremur næstu, 6-3, 7-5 og 6-4.
Söderling mætir Tomas Berdych frá Tékklandi í undanúrslitum en Berdych vann Rússann Mikhail Youzhny í dag, 3-0. Það er í fyrsta sinn sem hann keppir í undanúrslitum á stórmóti í tennis.
Síðari tvær viðureignirnar í fjórðungsúrslitum í einliðaleik karla fara fram á morgun en þar verður til að mynda áðurnefndur Nadal í eldlínunni.