Fram kemur á vef Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands að litlar heimildir séu um gosið árið 1612 en nokkrar um gosið á 19. öld. Þar segir að bæði virðast hafa verið fremur lítil. Gosið 1821 til 1823 varð í tindi fjallsins, að því er virðist í norðvesturhluta öskjunnar. Jökulhlaup komu undan Gígjökli meðan á gosinu stóð.

Ofan 900 til 1000 metra hæðar er fjallið þakið jökli. Efst á Eyjafjallajökli er lítil askja, svokallaður sigketill, 2-2,5 kílómetra í þvermál. Askjan er þakin jökli en eftir ummerkjum að dæma er hún grunn. Á vef Jarðvísindastofnunnar segir að askjan sé opin norðurátt þar sem brattur skriðjökull, Gígjökull, fellur niður á láglendi. Nokkrir klettar standa upp úr jöklinum á börmum öskjunnar. Þeirra á meðal eru Innri og Fremri Skoltur, Goðasteinn, Guðnasteinn og Hámundur sem er hæsti tindur jökulsins.
Kort Landmælinga Íslands af Eyjafjallajökli.